„Það sem er að gerast í Afganistan er ótrúlegt og við erum blekkt af mjög sterkum mönnum sem eru duglegir samningamenn sem hafa barist í þúsund ár og hjá þeim snýst allt um að semja,“ sagði Trump. „Talibanar eru góðir bardagamenn, það get ég sagt. Góðir í að berjast. Það verður að hrósa þeim fyrir það. Þeir hafa barist í þúsund ár og það er það sem þeir gera: Þeir berjast.“
„Talibanar hafa umkringt flugvöllinn og hver veit hvort þeir muni koma vel fram við okkur? Ef þeir eru snjallir, og þeir eru snjallir, þeir eru snjallir, þá munu þeir leyfa Bandaríkjamönnum að komast í burtu,“ sagði forsetinn fyrrverandi einnig.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Trump talar jákvætt um Talibana en það gerði hann einnig á síðasta ári þegar hann samdi við þá um brotthvarf Bandaríkjahers frá Afganistan.
Ben Rhodes, stjórnmálaskýrandi hjá Msnbc sjónvarpsstöðinni, tjáði sig um orð Trump í kjölfar viðtalsins við Fox News: „Það er auðvelt að sjá fáránleikann í mörgu af því sem hann gerði þegar hann var í Hvíta húsinu – til dæmis að vilja bjóða Talibönum til Camp David. En í raun er það þessi samningur hans sem setti af stað þá atburðarás sem hefur orsakað þá stöðu sem nú er uppi. Sú staðreynd að hann hrósar Talibönum og talar um að þeir hafi verið hér í 1.000 ár styrkir enn frekar þá tilfinningu að hann hafi ekki minnstu hugmynd um hvað hann gerði.“
Eins og flestum er væntanlega kunnugt eru Talibanar ekki 1.000 ára gömul samtök því þau voru stofnuð í september 1994.