Landbúnaðarráðuneytið væntir þess að uppskeran verði 24 til 30% minni en á síðasta ári og því gæti árið orðið eitt það versta, hvað varðar uppskeru, frá upphafi. „Það lítur út fyrir að bera megi uppskeru ársins saman við uppskeruna 1977 en þá höfðu bæði frost og mikil rigning að sumri til áhrif á uppskeruna,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Næturfrost herjaði á vínræktarhéruð landsins í apríl og fór illa með vínþrúgurnar í mörgum héruðum, má þar nefna Bordeaux, Bourgogne og Champagne. Síðan hefur rignt mikið í sumar og það hefur ekki verið til að bæta ástandið því öll þessi rigning hefur gert mjölsveppi kleift að dafna en það er sníkjudýrs myglusveppur sem leggst á blöð jurta.
Það er ekki nóg með að vænta megi minni uppskeru af vínþrúgum því einnig er reiknað með að uppskera á kíví, apríkósum, eplum og fleiri ávöxtum verði í minna lagi. „Þetta eru líklega mestu hörmungar landbúnaðarins á öldinni,“ segir Julien Denormandie, landbúnaðarráðherra.