Þetta er fólk sem uppfyllir hugsanlega ekki skilyrðin fyrir að fá að vera áfram í landinu en yfirleitt er litið til menntunar fólks og starfsreynslu þegar kemur að úthlutun landvistarleyfa. The Washington Post skýrir frá þessu.
Marco Mendicion, ráðherra innflytjendamála, sagði í samtali við blaðið að innflytjendur séu hluti af áætlun ríkisstjórnarinnar um að hraða endurreisn efnahagslífsins og styrkja stöðu þess til framtíðar.
Ríkisstjórnin hefur gripið til margvíslegra aðgerða í þessu skyni og hefur þeim og fjölgun innflytjenda almennt verið vel tekið.
Áður en heimsfaraldurinn skall fjölgaði Kanadamönnum á hraða sem hefur ekki sést áratugum saman og var fólksfjölgunin meiri en hjá hinum ríkjunum í hópi G7. Aðalástæðan var mikill fjöldi innflytjenda miðað við tölur frá kanadísku hagstofunni en samkvæmt þeim stóðu innflytjendur á bak við 86% af fjölguninni 2019. Það ár fengu 314.175 innflytjendur varanlegt dvalarleyfi en 2015 voru þeir 271.840. Áhrifa heimsfaraldursins gætti mjög á síðasta ári og aðeins voru gefin út 184.595 varanleg dvalarleyfi en fyrirhugað var að gefa út 341.000 slík leyfi. Þetta var höfuðverkur fyrir yfirvöld því mjög er treyst á innflytjendur til að vega á móti lágri fæðingartíðni og sífellt hækkandi meðalaldri.
Til að mæta þessum samdrætti á síðasta ári tilkynnti ríkisstjórnin í október síðastliðnum að 401.000 innflytjendur muni fá dvalarleyfi á þessu ári og að leyfin verði 411.000 á næsta ári og 421.000 árið 2023.
Til að ná þessum fjölda er sjónunum nú beint að fólki sem er þegar í landinu og er með tímabundin atvinnuleyfi. Um 90.000 manns er að ræða. Þar af eru um 40.000 námsmenn, 20.000 starfsmenn í heilbrigðisgeiranum og 30.000 starfsmenn í öðrum „nauðsynlegum“ störfum, til dæmis afgreiðslufólk, húsverði og kjötiðnaðarmenn.