Eins og víðar þá er það Deltaafbrigðið sem geisar og gerir landsmönnum lífið leitt en lítil þátttaka í bólusetningum hefur einnig sitt að segja.
Niðurstaða rannsóknar hugveitunnar Levada Center sýnir að 55% Rússa hafa ekki í hyggju að láta bólusetja sig.
Moskva er miðpunktur faraldursins í landinu. Þar hefur starfsfólki í ákveðnum atvinnugreinum verið gert skylt að láta bólusetja sig og gripið hefur verið til sama ráðs í nokkrum öðrum héruðum.
Í gær höfðu 28,8 milljónir Rússa lokið bólusetningu en 146 milljónir búa í landinu. Yfirvöld hafa ítrekað hvatt og beðið almenning um að láta bólusetja sig en það skilar litlum árangri.
Rússnesk yfirvöld hafa verið sökuð um að leyna umfangi faraldursins en samkvæmt opinberum tölum hafa rúmlega 168.000 látist af völdum COVID-19. Ef sú tala er skoðuð út frá íbúafjölda þá er Rússland í fimmtugasta sæti yfir hlutfallsleg dauðsföll af völdum COVID-19.