Samkvæmt veðurspám mun hitinn á sunnanverðri Ítalíu og Grikklandi fara yfir 40 stig í dag. Ástæðan er að mjög heitt loft berst frá norðanverðri Afríku yfir mitt Miðjarðarhafið. Í gær komst hitinn í 44 stig á Sikiley. Í Túnis mældist 49 stiga hiti.
Í dag getur hitinn farið yfir 45 stig á Sikiley, Sardiníu og sunnanverðri Ítalíu. Spár gera ráð fyrir að hann nái allt að 47 stigum. Ef það gengur eftir mun ítalska hitametið verða jafnað en það er einmitt 47 stig og er frá 25. júní 2007 í Foggia.
Í vesturhluta Grikklands og Albaníu gæti hitinn farið í 44 stig í dag.
Hitinn mun síðan teygja sig yfir á Íberíuskaga þar sem miklum hita er spáð. Spáforrit gera ráð fyrir að frá föstudegi geti hitinn náð 47 stigum á Spáni en spænska hitametið er 47,3 stig en það er frá 13. júlí 2017 í Montoro.
Það sem af er ári er hæsti hitinn sem mælst hefur í Evrópu 47,1 stig en hann mældist í norðanverðu Grikklandi 3. ágúst.