Húsið er búið til með þrívíddarprentara og er í byggingu við Johnson Space Center í Houston í Texas. Markmiðið með dvölinni í húsinu er að rannsaka áhrif einangrunar á fólk.
Þátttakendur munu þurfa að takast á við ákveðin verkefni, svipuð þeim sem þarf væntanlega að sinna á Mars. Samskipti þeirra við umheiminn verða takmörkuð og þeir munu nota útbúnað eins og verður notaður á Mars. Að auki fá þeir bara mat eins og verður í boði á Mars þegar geimfarar verða sendir þangað.
Þrjár tilraunir af þessu tagi verða gerðar og fara þær fram haustið 2022.
„Við viljum skapa raunverulegar aðstæður, eins og þær eru á Mars. Við viljum öðlast þekkingu á hvernig fólk stendur sig við slíkar aðstæður,“ segir Grace Douglas, hjá NASA.
Opnað var fyrir umsóknir á föstudaginn en það geta ekki allir sótt um. Til að geta sótt um þarf fólk að vera með meistaragráðu í einhverri vísindagrein, verkfræði eða stærðfræði eða með reynslu sem flugmenn. Fólk verður að vera í góðu formi og má ekki þjást af neinu fæðuóþoli. Þess utan eru það aðeins Bandaríkjamenn á aldrinum 30 til 55 ára sem eru gjaldgengir.