Á sunnudaginn handtók lögreglan 27 ára heimamann, Theerawut Tortip, sem er grunaður um að hafa myrt hana og stolið reiðufé frá henni. Hann hafði sem svarar til um 1.000 íslenskra króna upp úr krafsinu. BBC skýrir frá þessu.
Lögreglan hefur ekki skýrt frá hvernig konan var myrt og hvort eitthvað meira hafi legið að baki en þjófnaður á reiðufé.
Upp komst um Tortip á grunni upptaka úr eftirlitsmyndavélum sem sýndu að hann hafði verið við sama foss og Nicole Sauvain–Weisskopf á sama tíma og hún. Hann játaði síðan að hafa myrt hana eftir langa yfirheyrslu.
Þann 1. júlí hófst tilraun taílenskra yfirvalda til að fá fleiri ferðamenn til landsins. Í henni felst að bólusettir ferðamenn mega koma til Phuket án þess að fara í sóttkví. Þeir verða að dvelja á eyjunni í 14 daga en eftir það mega þeir fara til meginlandsins.
Yfirvöld hafa nú hert öryggisgæslu á eyjunni í kjölfar morðsins því þau óttast að það verði til að fæla ferðamenn frá. Um 16.000 ferðamenn hafa komið til eyjunnar síðan tilraunin hófst.