Lögreglan leggur hald á ökutækin og síðan fara saksóknarar fram á það fyrir dómi að þau verði gerði upptæk til ríkisins. Engu máli skiptir hver er skráður eigandi ökutækis sem er notað við það sem flokkast sem brjálæðisakstur, lögreglan leggur hald á það.
Undir skilgreininguna á brjálæðisakstri falla til dæmis of hraður akstur þar sem ekið er að minnsta kosti tvöfalt hraðar en heimilt er en þó að lágmarki á 100 km/klst eða yfir 200 km/klst, ölvunarakstur og ítrekaður akstur sviptur ökuréttindum.
Samkvæmt tölum frá ríkislögreglustjóraembættinu þá eru tæplega 40% þeirra ökutækja sem hald hefur verið lagt á í eigu einhvers annars en ökumannanna. Meðal eigendanna eru fjármögnunarfyrirtæki en þau eru mjög ósátt við þetta því þau missa ökutæki sín með haldlagningunni. Að minnst kosti tvö fjármögnunarfyrirtæki hafa látið reyna á það fyrir dómi hvort það standist lög að lögreglan leggi hald á ökutæki í þeirra eigu vegna meintra umferðarlagabrota leigutaka. Bæði undirréttur og Landsréttur hafa staðfest að lögreglunni sé heimilt að leggja hald á ökutækin. Málin bíða þess nú að fara fyrir dóm í haust þar sem saksóknarar munu krefjast þess að ökutækin verði gerð upptæk til ríkisins.
Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóraembættinu þá eru það ungir karlmenn sem eru í meirihluta þeirra sem hafa komið við sögu í málum af þessu tagi, eins og er raunar staðreynd í öllum öðrum tegundum umferðarlagabrota í Danmörku.
Nokkrir hafa verið kærðir oftar en einu sinni fyrir brjálæðisakstur og hafa því misst fleiri en eitt ökutæki í hendur lögreglunnar.