Þetta eru frumniðurstöður rannsóknar á hvernig þriðji skammturinn fer í fólk. Ísrael er eitt fyrsta ríki heims sem býður íbúum upp á þriðja skammtinn og því er vel fylgst með áhrifunum. Til dæmis fylgist bandaríska lyfjastofnunin mjög vel með gangi mála.
Í gær skýrði Clalit, sem er stærsti aðilinn á sviði heilbrigðismála í Ísrael, frá því að rúmlega 240.000 manns hafi fengið þriðja skammtinn af bóluefni frá Pfizer/BioNTech. Um 4.500 manns, sem fengu þriðja skammtinn frá 30. júlí til og með 1. ágúst, tóku þátt í frumrannsókninni. 88% þeirra sögðu að þeim hafi liðið „eins eða betur“ en eftir að þeir fengu skammt númer tvö. 31% sögðust hafa verið aumir þar sem nál var stungið í þá og var það algengasta aukaverkunin. Um 0,4% sögðust hafa glímt við öndunarörðugleika og 1% sagðist hafa leitað til læknis vegna aukaverkana.