Það voru vísindamenn við Kings College London sem gerðu rannsóknina en hún hefur verið birt í læknaritinu The Lancet.
Rúmlega 200.000 börn, smituð af kórónuveirunni og ekki, tóku þátt í rannsókninni. Tvö af hverjum þremur, sem greindust með veiruna, fengu engin sjúkdómseinkenni. 1.734 börn, sem greindust með veiruna og fengu sjúkdómseinkenni, voru tekin til sérstakrar rannsóknar. Þau eru á aldrinum 5 til 17 ára.
Helstu niðurstöðurnar voru að tæplega 1 af hverjum 20 var með sjúkdómseinkenni í meira en fjórar vikur. 1 af hverjum 50 var með einkenni í meira en átta vikur. Hjá þeim sem glímdu við langvarandi áhrif smits dró smám saman úr þeim. Flest börnin náðu sér á um sex dögum. Algengustu sjúkdómseinkennin voru höfuðverkur og þreyta. Sum eldri barnanna glímdu einnig við skert lyktar- og bragðskyn.
Í stuttu máli sagt þá sýna niðurstöður rannsóknarinnar að börn glíma sjaldan við langvarandi veikindi af völdum COVID-19. Veikindi barna eru yfirleitt skammvinn og einkennin eru væg. Sum börn glíma þó við sjúkdómseinkenni eftir að þau eru laus við smitið.