The Guardian skýrir frá þessu. Á mánudaginn voru 55 ný tilfelli skráð í yfirstandandi faraldri sem hefur nú náð til rúmlega 20 bæja og borga.
Í mörgum stórum borgum ætla yfirvöld nú að taka sýni úr milljónum íbúa, þar á meðal í Peking. Á meðan eru bæir og borgir í sóttkví og það sama á við um þá sem hafa verið í samskiptum við smitaða.
Allar ferðir járnbrautalesta, strætisvagna og flugvéla til svæða þar sem smit hafa komið upp hafa verið stöðvaðar. Einnig hefur verið lokað algjörlega á ferðir ferðamanna til og frá þessum svæðum.
Í Zhuzhou í Hunan-héraði þurfa allir íbúarnir, sem eru 1,2 milljónir, að halda sig heima við þar til á fimmtudag.
Kínversk yfirvöld hafa lengi stært sig af góðum árangri í baráttunni við veiruna sem kom fyrst fram á sjónarsviðið í Wuhan í lok árs 2019. En yfirstandandi faraldur ógnar þessum árangri. Hann hófst með níu ræstitæknum sem greindust með smit eftir að hafa unnið á alþjóðaflugvellinum í Nanjing.
Á síðustu tveimur vikum hafa um 430 smit greinst í landinu en þar búa 1,4 milljarðar svo hlutfallið er ekki hátt.