Upphaflega voru 420 ákærðir en þeim fækkaði síðan aðeins og eftir standa 355 sakborningar. Það tók saksóknara þrjár klukkustundir að lesa upp nöfn allra hinna ákærðu á fyrsta degi réttarhaldanna. Fólkið er meðal annars ákært fyrir morð, fíkniefnaviðskipti, peningaþvætti og fjárkúgun. Rúmlega 900 vitni verða kölluð fyrir dóminn.
Málarekstur ákæruvaldsins beinist aðallega gegn Luigi Mancuso, leiðtoga Mancusogengisins frá Vibo Valentina. Þetta er valdamikið og öflugt gengi sem er þekkt fyrir að stunda viðskipti með kókaín og hika ekki við að beita hrottalegu ofbeldi. Áður hafði einn meðlimur í genginu verið dreginn fyrir dóm, ákærður fyrir að hafa myrt konu og að hafa fóðrað svín með líki hennar.
Það gerir starf saksóknara ekki auðveldara að meðlimir glæpagengisins eiga marga háttsetta vini sem eru reiðubúnir að hjálpa þeim. Merki um þetta er að meðal hinna ákærðu að þessu sinni er Giancarlo Pittelli, fyrrum þingmaður Forza Italia.