„Ég hef ekki fundið neina aðra leið til að hvetja fólk til að láta bólusetja sig. Sumir munu kannski gagnrýna þetta og segja að þetta sé ósanngjarnt en mér finnst þetta sanngjarnt,“ sagði Andrej Babis, forsætisráðherra.
Babis, sem er 66 ára, er einn auðugasti maður landsins en hann á eignarhaldsfélagið Agrofert en auður hans byggist á fyrirtækinu. Hann hvetur einkafyrirtæki til að fara sömu leið og bjóða starfsfólki aukafrídaga ef það lætur bólusetja sig. „Allir góðir atvinnurekendur og fyrirtækjaeigendur vita að þeir verða að vernda starfsfólk sitt. Annars standa þeir uppi með veikt fólk í einangrun og þegar upp er staðið hefur það neikvæð áhrif á fyrirtækin,“ sagði hann.
Um 10,6 milljónir búa í Tékklandi og er búið að bólusetja um 4,7 milljónir. Nokkuð stór hreyfing berst gegn bóluefnum og sóttvarnaaðgerðum í Tékklandi og nýtur hún meðal annars stuðnings Vaclav Klaus, fyrrum forseta.
Tékkland er meðal þeirra ríkja heims þar sem flest kórónuveirusmit hafa verið skráð hlutfallslega. Þar hafa nú tæplega 1,7 milljónir tilfella verið skráð en það svarar til um 156.000 smita á hverja eina milljón landsmanna.