LiveScience skýrir frá þessu.
Vísindamennirnir gerðu tvö reiknilíkön um hvernig líf stjarna með mismunandi massa gengur fyrir sig. Í dómsdagsspá þeirra er smá ljósglætu að finna. Eftir því sem sólin eldist næstu fimm milljarða ára munu vetnisbirgðir hennar þrjóta og hún mun blása út og verða risastór og rauð. Þvermál hennar verður milljónum kílómetra meira en það er í dag. Líklega mun hún þá gleypa Mars og Merkúr.
Þegar þar verður komið við sögu verða sólvindarnir orðnir svo öflugir að segulsvið jarðarinnar verður gagnslaust. Gufuhvolfið mun þá fjúka út í geiminn með þeirri litlu vernd sem restin af segulsviðinu veitir.
Að lokum mun kjarni sólarinnar dragast saman og þyngdaraflið mun ýta þeim plánetum, sem sólin gleypir ekki, tvöfalt lengra frá henni. Að lokum verður sólin að hvítum dverg. Stjörnur af þeirri stærð senda ekki frá sér sólvinda og því telja vísindamennirnir, sem gerðu rannsóknina, hugsanlegt að líf geti myndast á nýjan leik á plánetum nærri hvítum dvergum. Ekki er talið útilokað að líf sé nú þegar að finna á plánetum nærri hvítum dvergum.
Rannsóknin hefur verið birt í Monthly Notices of the Royal Astronomical Society.