Mjög hefur hægt á bólusetningum í Bandaríkjunum því margir vilja ekki láta bólusetja sig eða eru hikandi. Þetta hefur valdið því að smitum hefur farið fjölgandi að undanförnu sem og dauðsföllum af völdum COVID-19.
Bandaríska smitsjúkdómastofnunin CDC segir að 49,2% landsmanna hafi lokið bólusetningu og að 56,9% hafi fengið að minnsta kosti einn skammt. En hlutfallið er mjög mismunandi á milli ríkja landsins. Almennt séð er þátttakan mest í ríku og þéttbýlu ríkjunum en í Suðurríkjum, íhaldssömum ríkjum og fátækari landbúnaðarríkjum hafa mun færri látið bólusetja sig. Í Vermont hafa 67,4% lokið bólusetningu en í Alabama og Mississippi er hlutfallið 34,1%.
Í New York borg hafa 56,7% íbúa lokið bólusetningu og nú vonast Bill de Blasio, borgarstjóri, til að hægt verði að fá enn fleiri til að láta bólusetja sig með því að lofa þeim fjárhagslegum ávinningi á móti. New York Times skýrir frá þessu.