Helmingur af skömmtunum er til afhendingar fyrir árslok og hinn helmingurinn fyrir apríl á næsta ári. Þetta þýðir að Bandaríkjastjórn hefur keypt 500 milljónir skammta af bóluefni fyrirtækjanna. Á síðasta ári tryggði stjórnin sér kauprétt að 600 milljónum skammta. Um 333 milljónir búa í Bandaríkjunum.
Bandaríkjastjórn hefur að auki pantað 500 milljónir skammta af bóluefnum til að gefa öðrum löndum. Þar er um að ræða bóluefni frá Pfizer/BioNTech, Johnson & Johnson og AstraZeneca. Í síðustu viku voru 22 milljónir skammta send til annara landa að sögn Jen Psaki, talskonu Joe Biden, forseta.
Fyrr í mánuðinum hvatti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO lönd heims til að panta ekki bóluefni til að gefa þriðja skammtinn á meðan mörg lönd glíma við skort á bóluefnum.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri WHO, segir að mikill ójöfnuður ríki hvað varðar skiptingu bóluefna á milli ríkja heims. Hann sagði að sum lönd hafi pantað milljónir skammta af bóluefnum, til að gefa fólki aukaskammt, á meðan önnur lönd hafi ekki fengið nægilega mikið af bóluefnum til að geta bólusett heilbrigðisstarfsfólk og fólk í viðkvæmum hópum.