Kransæðasjúkdómur er ein algengasta dánarorsökin um allan heim. Hann kemur upp í tengslum við áralanga þróun æðakölkunar sem veldur því að veggir kransæðanna þykkna með þeim afleiðingum að misþykkar fituskellur skaga inn í þær.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í ritinu Critical Reviews in Food Science and Nutrion á miðvikudaginn.
CNN segir að í niðurstöðum hennar komi fram að fyrir hver 50 grömm af lamba-, nauta- og svínakjöti sem fólk borðaði hafi líkurnar á því að það fengi kransæðasjúkdóm aukist um 9%. Þegar fólk borðaði unnar kjötvörur á borð við beikon eða skinku jukust líkurnar um 18% við hver 50 grömm.
Fyrir þá sem eru hrifnir af fuglakjöti eru góðu fréttirnar þær að ekki fundust tengsl á milli neyslu þess og kransæðasjúkdóms. Fuglakjöt inniheldur ekki eins mikið af mettaðri fitu og rautt kjöt eða salti eins og er í unnum kjötvörum. Mettuð fita gegnir lykilhlutverki í að stífla kransæðarnar og salt orsakar hærri blóðþrýsting og dregur úr blóðflæði til hjartans.