Eitt af því sem hefur vakið mikla athygli er að eitt og annað kemur fram um opinbera heimsókn Bill Clinton, þáverandi Bandaríkjaforseta, til Bretlands 1997. Tony Blair hafði þá nýverið tekið við embætti forsætisráðherra og vildi Clinton hitta hann. Í skjölunum kemur meðal annars fram að þeir hafi snætt á frönskum veitingastað við London Bridge ásamt eiginkonum sínum. Á matseðlinum var meðal annars villtur lax. Kostnaðurinn við máltíðina var 298 pund. En þetta hefur svo sem ekki vakið neina sérstaka athygli Breta. Þeir hafa haft meiri áhuga á af hverju Clinton afþakkaði teboð hjá Elísabetu II drottningu.
Honum var formlega boðið í te til hennar en afþakkaði boðið pent. Í bréfi frá ritara Tony Blair kemur fram að forsetahjónin hafi verið mjög glöð yfir boðinu en hafi afþakkað það kurteislega. Í skjölunum kemur fram að ástæðan fyrir því að hjónin afþökkuðu boðið hafi verið að þau hafi frekar viljað vera „túristar“ í Lundúnum og vildu frekar fara og versla og snæða á indverskum veitingastað en hitta drottninguna í Buckinghamhöll. „Forsetinn sagðist vilja vera túristi og vildi fara í almenningsgarð, verslanir og borða indverskan mat,“ segir í bréfi ritarans. Clinton fékk þó ekki indverska matinn og varð að sætta sig við franskan mat.