Expressen skýrir frá þessu. Fram kemur að málið hafi farið af stað í október 2019 þegar maðurinn setti sig í samband við stúlku í gegnum Snapchat. Hann ætlaði að fá stúlkuna til að senda sér nektarmyndir. En þetta fór algjörlega út um þúfur og maðurinn var handtekinn og þá fór málið heldur betur að vinda upp á sig.
Hjá manninum fann lögreglan þrjá farsíma og tölvu. Í þessum tækjum hafði maðurinn vistað 600.000 myndir og myndbönd með barnaklámi. Fórnarlömbin voru 11 til 15 ára stúlkur sem voru oft naktar eða sýndar í kynferðislegu samhengi á þessum myndum.
Þess utan fann lögreglan 13.000 skilaboð og út frá þeim komst lögreglan að því að maðurinn hafði brotið gegn 37 stúlkum í gegnum Snapchat. Hann hafði fengið margar þeirra til að senda sé nektarmyndir.
Expressen segir að lögreglan hafi einnig fundið ýmsa hrollvekjandi texta sem maðurinn hafði skrifað. „Ég tel ekki að nauðganir, barnaníð eða barnaklám sé eitthvað sem er rangt eða ólöglegt. Ég tel þetta vera eðlilegt og löglegt út frá því hvernig allar stúlkur hegða sér í nútímasamfélagi,“ hafði hann meðal annars skrifað.