CNN segir að maðurinn hafi farið um borð í flugvélina á flugvelli í Jakarta og hafi verið klæddur í niqab, sem er klæðnaður sem sumar múslímskar konur klæðast en hann hylur þær frá toppi til táar. Hann notaði skilríki eiginkonunnar og neikvæða niðurstöðu úr PCR-sýnatöku hennar til að komast um borð.
En þegar um borð var komið brá maðurinn sér á salernið og kom út í karlmannsfötum. Þessu tók flugfreyja ein eftir og gerði lögreglunni viðvart. Maðurinn var því handtekinn þegar vélin lenti í Ternate. Hann var strax fluttur í sýnatöku og reyndist vera með COVID-19.
Maðurinn var fluttur í sóttkvíarhús þar sem hann verður látinn dvelja þar til veikindin eru afstaðin. Að því loknu er stefnan að færa hann fyrir dómara en hann verður ákærður fyrir athæfið.