Nýleg hitabylgja í Norður-Ameríku varð um 500 manns að bana og hvert hitametið á fætur öðru var slegið. Sums staðar voru þau slegin með rúmlega 5 gráðum. Í Kanada fór hitinn hæst í 49,6 gráður og hefur aldrei mælst hærri hiti þar í landi.
The Guardian segir að hópur loftslagsvísindamanna segi að þetta veki miklar áhyggjur af að loftslagsbreytingarnar og áhrif þeirra hafi nú farið yfir hættuleg mörk.
Fyrsta greiningin á þessari hitabylgju var birt nýlega. Í henni kemur fram að loftslagsbreytingar af mannavöldum hafi gert hitabylgjur sem þessar að minnsta kosti 150 sinnum líklegri til að eiga sér stað.
Hitastig fer hækkandi um allan heim vegna losunar gróðurhúsalofttegunda og vísindamenn hafa lengi spáð því að hitamet muni falli sífellt oftar.
Höfundar nýju greiningarinnar segja að hitabylgjan hafi verið mun verri en verstu hitabylgjur sem gert hefur verið ráð fyrir í loftslagsreiknilíkönum. Þetta neyðir þá til að endurskoða skilning sinn á hitabylgjum og hugleiða líkurnar á að svipaðar hitabylgjur skelli á öðrum heimshlutum, til dæmis Norður-Evrópu.