Hann var rekinn úr varaliðinu og þar með hernum nýlega eftir að hann heimsótti tvo félaga sína úr úrvalssveitunum og reyndi að fá þá til liðs við hóp sem hyggur á blóðuga uppreisn og valdarán.
Leyniþjónusta hersins vildi ekki tjá sig um málið þegar Jótlandspósturinn leitaði eftir svörum um mál Gram og þessa hóps sem er sagður vera til.
Það var Berlingske sem fyrst skýrði frá brottrekstri Gram en hann hefur áður komist í kastljósið en þá var hann í einkennisbúningi sínum þegar hann tók þátt í mótmælum Men In Black gegn sóttvarnaaðgerðunum.
Berlingske fékk aðganga að málsskjölunum varðandi mál Gram á grundvelli upplýsingalaga og segir að í þeim komi meðal annars fram að Gram hafi sagt félaga sínum úr úrvalssveitunum að „uppreisn verði gerð þar sem ofbeldi verður beitt“.
„Þú gafst einnig til kynna að markmiðið með heimsókn þinni væri að fá umræddan samstarfsmann þinn til liðs við hóp sem samanstendur af valdamiklu fólki, þar á meðal háttsettum hermönnum,“ segir meðal annars í uppsagnarbréfi hersins til Gram.
Í samtali við Berlingske vísaði Gram því á bug að hann hafi reynt að fá samstarfsmenn sína til liðs við slíkan hóp né að vita nokkuð um hann. Hann sagðist heldur ekki styðja hugmyndir um uppreisn.