Þetta kemur fram i nýrri bók, „I Alone Can Fix This“ eftir Carol Leonnig og Philip Rucker. The Guardian skýrir frá þessu. Bókin kemur út í næstu viku en Washington Post, þar sem höfundarnir starfa, birti útdrátt úr henni á þriðjudaginn og New York Times gerði það í gær.
Þessi líking Milley á boðskap Trump við það sem gerðist á dögum Þriðja ríkisins í Þýskalandi kemur í kjölfar fullyrðinga um að Trump hafi sagt við John Kelly, starfsmannastjóra sinn, að „Hitler hafi gert marga góða hluti“. Trump neitar að hafa sagt þetta.
Í bók Leonnig og Rucker kemur fram að Milley hafi rætt við „gamlan vin“ sem varaði hann við að Trump og bandamenn hans væru að reyna „að steypa stjórninni“ í kjölfar sigurs Joe Biden í forsetakosningunum sem Trump hefur síðan haldið fram að hafi verið vegna kosningasvika. Hann hefur þó ekki getað fært fram nein rök eða sannanir fyrir þessum fullyrðingum sínum sem bandarískir dómstólar hafa hafnað og vísað á bug.
Við þessi tíðindi er Milley sagður hafa sagt: „Þeir geta reynt það, en þeim mun ekki takast það, andskotinn hafi það. Það er ekki hægt að gera þetta án hersins. Þú getur ekki gert þetta án CIA og FBI. Við erum með byssurnar.“
Milley er sagður hafa kallað stuðningsfólk Trump „Brownshirts“ en þar er vísað til herskárra stuðningsmanna Hitlers á fjórða áratugnum. Milley er sagður hafa talið að „Trump væri að kynda undir ólgu, hugsanlega í þeirri von að geta virkjað uppreisnarákvæðið og kallað herinn til aðstoðar“ löngu áður en ráðist var á þinghúsið.