Á mánudaginn fór lögreglan fram á að gæsluvarðhaldið yrði framlengt og varð dómarinn við því og úrskurðaði manninn í áframhaldandi gæsluvarðhald til 10. ágúst. Maðurinn neitar sök í þeim málum sem eru til rannsóknar en málið hefur undið upp á sig síðan hann var handtekinn.
Lögreglan hefur nú fengið aðgang að stórum hópi á Facebook þar sem mörg hundruð ungar stúlkur og konur eru meðlimir. Þær hafa deilt upplýsingum um hræðilegt ofbeldi sem þær segja að TikTok-maðurinn hafi beitt þær.
Lögreglan hefur einnig verið í sambandi við stefnumótasíðuna „Sugardaters“ en þar var maðurinn skráður notandi undir nafninu „Fljúgandi grísinn“. Búið er að eyða aðgangi hans og ekki er hægt að sjá skilaboðin sem hann sendi nema í gegnum þau skilaboð sem konur, sem hann skrifaðist á við, eru með á sínum aðgöngum. Á þann hátt er hægt að endurskapa skilaboðin frá manninum.
Saksóknari skýrði frá því á mánudaginn að 15 ný mál á hendur manninum hafi nú verið send til rannsóknar hjá lögregluembættum víða um Danmörku.