Í grein í vísindaritinu The New England Journal of Medicine segja tveir bandarískir læknar, þeir Steven Philips og Michelle A. Williams, að eftirköst COVID-19 smita séu næsta stóra heilbrigðisvandamálið á heimsvísu. Williams er deildarforseti við Harvard T.H. Chan School of Public Health og Philips er forstjóri COVID-19 rannsóknarstofu í Washington D.C
Þau segja að rúmlega 15 milljónir Bandaríkjamanna muni glíma við eftirköst af COVID-19. Rannsóknir þeirra hafa sýnt að meðalaldur þeirra sem glíma við eftirköst er 40 ár og að það eru aðallega konur sem glíma við eftirköst. Þetta veldur læknunum miklum áhyggjum. Þeir telja hættu á að eftirköstin verði af sumum flokkuð sem andleg vandamál þar sem meirihluti þeirra sem glímir við þau eru konur.
Þau hvetja því fólk til að láta bólusetja sig strax til að forðast smit. Einnig hvetja þau yfirvöld til að taka eftirköst COVID-19 smita hjá fólki mjög alvarlega.