Danska ríkisútvarpið (DR) skýrir frá þessu. Bóluefnin frá Janssen og AstraZeneca eru ekki notuð í hinni opinberu bólusetningaáætlun í Danmörku en hins vegar getur fólk fengið bólusetningu með þeim ef það kýs það sjálft. Það þarf að sækja sérstaklega um það og ræða við lækni sem gefur síðan heimild til bólusetningar eða hafnar henni.
Konan hafði nýtt sér þetta og verið bólusett með bóluefninu frá Janssen. DR segir að konan hafi fengið blóðtappa, blæðingar og lítið magn blóðflaga en þetta er þekkt sem Vitt-heilkennið.
Danska lyfjastofnunin telur að líklega hafi bóluefnið valdið þessu og hér sé því um Vitt-heilkennið að ræða.
Þetta er fyrsta tilfellið af Vitt í Danmörku eftir bólusetningu með bóluefninu frá Janssen.
Peter Geisling, læknir og sérfræðingur DR í heilbrigðismálum, sagði að um 29 ára konu væri að ræða. Hann sagði að ekki þurfi að undrast að þetta hafi gerst því niðurstöður dansk/norskrar rannsóknar sýni að reikna megi með að 1 af hverjum 40.000, sem er bólusettur með bóluefni frá Janssen eða AstraZeneca, fái Vitt. Búið er að bólusetja um 46.000 Dani með bóluefninu frá Janssen.
Þrjú tilfelli Vitt hafa komið upp í Danmörku eftir bólusetningu með AstraZeneca. Tveir létust.