Það er hið sérstaklega smitandi Deltaafbrigði sem er mest áberandi í þriðju bylgjunni sem nú breiðist hratt út í Suður-Afríku. „Við höfum sigrast á tveimur bylgjum en nú er komið nýtt fjall sem við verðum að klífa. Þetta er stór áskorun, gríðarleg aukning smita . . . eyðileggjandi bylgja,“ sagði Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, nýlega um stöðu mála.
Til að reyna að hemja útbreiðslu faraldursins hefur verið gripið til harðra sóttvarnaaðgerða í Suður-Afríku. Meðal annars er bannað að selja áfengi og samkomubann er í gildi, bæði innanhúss og utan. Vetrarfrí í skólum hófst fyrr en ráð var fyrir gert og útgöngubann hefur verið sett á.
Bylgjan hefur valdið miklu álagi á heilbrigðiskerfi landsins, sérstaklega í Jóhannesarborg, sem er stærsta borg landsins, en þar er erfitt að finna laus sjúkrarúm fyrir þá sem þurfa.
Matshidiso Moeti, svæðisstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO í Afríku, segir í fréttatilkynningu að í samanburði við fyrstu og aðra bylgju faraldursins í Afríku verði þriðja bylgjan miklu verri. „Þessi þriðja bylgjan hraðar öllu, dreifist hraðar og þyngra. Með fjölgun smita og fréttum af alvarlegum veikindum stefnir í að þessi bylgja verði sú versta í Afríku,“ segir í fréttatilkynningunni.
Til að geta haldið aftur af faraldrinum og brotið þessa kúrfu er nauðsynlegt að bólusetja Afríkubúa en það gengur hægt. Aðeins er búið að bólusetja tæplega 1% þeirra gegn COVID-19 miðað við tölur Johns Hopkins háskólans.
Í Suður-Afríku búa rúmlega 60 milljónir en þangað hafa aðeins borist um þrjár milljónir skammta af bóluefnum. Heilbrigðisráðherra landsins hefur sagt að ný sending af bóluefnum komi á næstu vikum en nokkur spillingarmál tengd kaupum á bóluefnum hafa gert út af við traust landsmanna á bólusetningaáætlun stjórnvalda.
Í öðrum Afríkuríkjum er einnig skortur á bóluefnum en WHO hefur lengi varað við nýrri bylgju faraldursins í álfunni. Aðeins er búið að bólusetja 1% íbúa álfunnar en þeir eru um 1,3 milljarðar.
Afríka er háð bóluefnum í gegnum hið alþjóðlega Covax samstarf en engar sendingar berast nú í gegnum það samstarf þar sem Indverjar hafa stöðvað útflutning bóluefna í gegnum Covax til að mæta eigin þörf fyrir bóluefni. Það er smávegis ljós í myrkrinu að Bandaríkin tilkynntu nýlega að þau sendi fljótlega fyrsta skammtinn af þeim 500 milljónum skammta sem þau hafa gefið álfunni.