Embættismaður í Seoul skýrði nýlega frá þessu. Hann sagði að stjórnvöld væru í viðræðum við framleiðendur mRNA-bóluefna en þeirra á meðal eru Pfizer/BioNTech og Moderna.
Ef þetta gengur upp mun það bæta mjög úr skorti á bóluefnum í Asíu en þar eru bólusetningar gegn COVID-19 komnar mun skemur á veg en í Norður-Ameríku og Evrópu.
Metnaður Suðurkóreumanna stendur til að landið verði eitt af stærstu framleiðslulöndum bóluefna. Samningar hafa nú þegar náðst við AstraZeneca og framleiðendur rússneska bóluefnisins Novavax um framleiðslu þeirra. Einnig hefur verið samið við Moderna um að bóluefnum frá fyrirtækinu verði pakkað í Suður-Kóreu og þeim tappað á flöskur.
„Við höfum átt í viðræðum við stóru lyfjafyrirtækin um framleiðslu mRNA-bóluefna,“ sagði Lee Kang-ho, formaður alþjóðabólusetningarnefndar suðurkóreska heilbrigðisráðuneytisins.
„Það eru fá fyrirtæki sem þróa mRNA-bóluefni – Pfizer, Moderna, CureVac og BioNTech. Það þýðir að það er takmarkað hversu mikið þau geta framleitt til að mæta alþjóðlegri eftirspurn. Suður-Kórea er því reiðubúin til að bjóða fram aðstöðu og hæft starfsfólk,“ sagði Lee.