Aðeins var heimilt að veiða úlfa á ákveðnu tímabili í febrúar en það virðist ekki hafa haldið aftur af öllum og er talið að veiðiþjófar hafi stundað úlfaveiðar eftir það. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn vísindamanna við Univeristy of Wisconsin.
Til stendur að heimila aftur veiðar á ákveðnum fjölda úlfa í Wisconsin í nóvember en Adrian Treves, sem vann að rannsókninni, telur að það sé ekki skynsamlegt og telur að yfirvöld í öðrum ríkjum eigi að hafa í huga hvernig málin hafa þróast í Wisconsin. Hann sagði að það að fjarlægja úlfa af lista yfir dýr í útrýmingarhættu í janúar, sem var gert skömmu áður en Donald Trump lét af embætti forseta, hafi opnað fyrir löglegar og ólöglegar veiðar á þeim.
Mjög er þrýst á ríkisstjórn Joe Biden að færa úlfa aftur í flokk dýra í útrýmingarhættu.
Eftir að úlfar voru teknar af lista yfir dýr í útrýmingarhættu hugðust yfirvöld í Wisconsin leyfa veiðar á þeim í nóvember en urðu að heimila þær í febrúar eftir að samtök veiðimanna höfðu sigur fyrir dómi og fengu útgefna fyrirskipun um að veiðar skyldu heimilaðar. Yfirvöld stöðvuðu þó veiðarnar eftir skamman tíma þegar búið var að skjóta 218 úlfa en kvótinn var 119 dýr. Vísindamenn við Wisconsin University áætla að veiðiþjófar hafi drepið 95 til 105 úlfa þessu til viðbótar frá því í nóvember og fram í miðjan apríl. Nú telji úlfastofninn í ríkinu 695 til 751 dýr en þau hafi verið að minnsta kosti 1.034 vorið 2020.