„Evrópuþingið og Framkvæmdastjórn ESB krefjast þess að fulltrúar hinsegins fólks fái aðgang að leikskólum og skólum. Það vilja Ungverjar ekki,“ skrifaði Orban á Facebook í gær og sagði að skriffinnum í Brussel komi þetta mál ekki neitt við. Málið snúist um fullveldi Ungverja.
Margir stjórnmálamenn innan ESB krefjast þess að Ungverjar verði sektaðir fyrir lögin sem þeir segja brjóta gegn grundvallarmannréttindum ESB. Gagnrýnendur telja að með ungversku lögunum sé barnaníð og klám tengt við réttindi hinsegin fólks og að það sé byggt á misskilningi.
Ursula von der Leyen, forseti Framkvæmdastjórnar ESB, segir yfirlýsingar ungverskra yfirvalda vera „hneyksli“.
Evrópuþingið samþykkti í gærkvöldi ályktun þar sem ungversku lögin eru fordæmd og er þess krafist að aðildarríki ESB og Framkvæmdastjórnin noti öll þau ráð sem hægt er til að stöðva ungversku lögin. Ályktunin er ekki bindandi en hún var samþykkt með 459 atkvæðum gegn 147.
Í valdatíð sinni hefur Orban skert réttindi samkynhneigðra og annarra minnihlutahópa. Þing landsins samþykkti til dæmis í maí á síðasta ári lög sem koma í veg fyrir að transfólk geti breytt skráningu á kyni sínu í opinberum gögnum.