Hægst ganga bólusetningar í Búlgaríu og áhugi landsmanna á að láta bólusetja sig fer dvínandi. Aðeins 16% hafa fengið einn skammt af bóluefni og 14% hafa lokið bólusetningu. Staðan er litlu skárri í Rúmeníu en innan við þriðji hver fullorðinn hefur fengið einn skammt af bóluefni þar. Ekki er hægt að kenna skorti á bóluefnum um og má í því sambandi benda á að Danir keyptu í síðustu viku 1,17 milljónir skammta af bóluefninu frá Pfizer/BioNTech af Rúmenum þar sem þeir sáu ekki fram á að koma þeim út.
Að meðaltali hafa 61% íbúa ESB fengið einn skammt hið minnsta af bóluefni. Best er staðan í Belgíu en þar hafa 76% fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni og 42% hafa lokið bólusetningu. Malta kemur þar á eftir með 72% sem hafa fengið einn skammt og 33% sem hafa lokið bólusetningu. Í Finnlandi eru hlutföllin 72% og 22%.
Almennt séð er töluverður munur á Austur- og Vestur-Evrópu þegar kemur að bólusetningum. Af þeim 11 löndum, þar sem fæstir hafa verið bólusettir, eru 10 í Austur-Evrópu og við Eystrasalt.
Framkvæmdastjórn ESB hefur áhyggjur af þessu en hún hefur sett það markmið að öll aðildarríkin verði búin að bólusetja 70% af fullorðnum fyrir ágústlok. Framkvæmdastjórnin reiknar með að í júlí verði öll aðildarríkin búin að fá nægilega mikið af bóluefnum til að bólusetja 70% fullorðinna.