Smitum og dauðsföllum fer nú fækkandi í Evrópu og Bandaríkjunum en búið er að bólusetja ansi marga íbúa. En í þróunarlöndunum fer smitum nú fjölgandi enda ekki búið að bólusetja stóran hluta íbúa þeirra.
Deltaafbrigðið á einnig sinn þátt í að smitum fer fjölgandi en afbrigðið er meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar.
Í síðustu viku létust að meðaltali 7.900 daglega af völdum COVID-19 um heim allan. Í janúar létust um 14.700 að meðaltali á dag en fyrir ári síðan létust um 5.000 á dag.
Sérfræðingar telja líklegt að dánartalan sé mun hærri því ekki sé hægt að stóla á skráningu yfirvalda í mörgum löndum.