CNN segir að í Mumbai hafi að minnsta kosti 12 „bólusetningamiðstöðvum“ verið komið upp. Þar var tekið á móti fólki og það sprautað með því sem það hélt vera bóluefni gegn COVID-19. „Þeir notuðu saltvatn og sprautuðu því í fólk,“ sagði Vishal Thakur, talsmaður lögreglunnar í Mumbai.
Hann sagði að um 2.500 manns hafi verið sprautaðir með saltvatni og hafi samtals greitt svikahröppunum 28.000 dollara. „Við höfum handtekið lækna. Þeir notuðu sjúkrahús sem útbjó fölsuð bólusetningarvottorð,“ sagði Thakur.
Búið er að handtaka 14 vegna málsins en fólkið er grunað um svik, morðtilraunir, samsæri og fleira. Thakur sagði að búast megi við að fleiri verði handteknir eftir því sem rannsókn málsins miðar áfram.
Í júní tilkynnti ríkisstjórnin að hið opinbera myndi dreifa bóluefnum til ríkja landsins þeim að kostnaðarlausu. Nú hafa um 62 milljónir Indverja lokið bólusetningu en það eru um 4,5% þjóðarinnar.
Fyrrnefndar svikabólusetningar fóru fram síðla í maí og byrjun júní. Rannsókn hófst eftir að sum fórnarlömb svikahrappanna tilkynntu um málið til lögreglunnar.