Samkvæmt tölum frá Gun Violence Archive voru að minnsta kosti 150 skotnir til bana í rúmlega 400 skotárásum víða um landið frá því á föstudaginn fram að miðnætti á sunnudaginn. Tölur frá mánudeginum eru því ekki inni í þessu. CNN skýrir frá þessu. Fram kemur að enn sé verið að taka við tölum og uppfæra.
Fram kemur að í New York, þar sem ofbeldisverkum þar sem skotvopn koma við sögu hefur fjölgað mikið að undanförnu, hafi 26 verið skotnir til bana í 21 skotárás. Á sama tíma á síðasta ári voru 30 skotnir til bana í 25 skotárásum. Það sem af er ári hefur ofbeldisverkum, þar sem skotvopn koma við sögu, fjölgað um tæplega 40% miðað við sama tíma í fyrra. 767 skotárásir hafa verið gerðar og í þeim hafa 885 látist.
Í Chicago voru 83 skotnir um helgina og létust 14 þeirra. Meðal hinna særðu eru 5 ára stúlka og 6 ára stúlka.
Í Atlanta var atvinnugolfarinn Gene Siller skotinn til bana á golfvelli á laugardaginn. Tvö önnur lík fundust á golfvellinum. Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins.
Í Forth Worth í Texas voru átta skotnir á sunnudaginn eftir að til deilna kom nærri bílaþvottastöð. Flest fórnarlambanna voru saklausir vegfarendur.
Á föstudagskvöldið voru fjögur börn skotinn í Norfolk í Virginíu. Þau eru á aldrinum 6 til 16 ára. Talið er að þau muni öll ná sér. 15 ára piltur hefur verið handtekinn vegna málsins.
Einn lést og ellefu særðust í skotárás í samkvæmi í Toledo í Ohio á sunnudagskvöldið. Tveir eru í lífshættu. Í Cincinnati í Ohio voru tveir karlmenn, 16 og 19 ára, skotnir til bana á sunnudagskvöldið og þrír til viðbótar særðust. Þetta átti sér stað í almenningsgarði þar sem fólk fagnaði þjóðhátíðardeginum. Þeir látnu rifust og drógu upp byssur og skutu hvorn annan. Hinir særðu voru saklausir vegfarendur.