„Fyrir 245 árum lýstum við yfir sjálfstæði frá fjarlægum konungi. Í dag erum við nær því en nokkru sinni að geta lýst yfir sjálftstæði frá banvænni veiru,“ sagði Biden þegar hann ávarpaði gestina en á meðal þeirra voru hermenn og heilbrigðisstarfsfólk.
„Við höfum náð taki á veirunni. En takið eftir því sem ég segi: COVID-19 hefur ekki enn verið sigrað. Við vitum öll að sterk afbrigði eins og Deltaafbrigðið eru komin fram. Að þessu sinni er 4. júlí sérstakur hátíðisdagur því við erum að koma út úr myrkrinu eftir ár með faraldri og einangrun, ár sársauka, ótta og sorglegs missis,“ sagði Biden einnig.
Markmið Biden um að 70% fullorðinna væru búnir að fá að minnsta kosti einn skammt af bóluefni gegn veirunni fyrir 4. júlí náðist ekki en hlutfallið er nú um 67%. Þetta veldur áhyggjum hjá sérfræðingum því mjög hefur hægt á hraða bólusetninga þar sem illa gengur að fá fólk til að mæta.
Biden lagði áherslu á að bóluefni séu besta vörnin gegn nýjum afbrigðum veirunnar.