Samtökin segja að yfirvöld í Hong Kong hafi notað lögin til að handtaka fólk af handahófi, stunda ritskoðun og brjóta á réttindum borgaranna.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Amnesty sem var birt í vikunni.
Öryggislögin voru svar kommúnistaflokksins við miklum mótmælum í Hong Kong þar sem íbúar kröfðust lýðræðis en það hefur átt undir högg að sækja eftir að Kínverjar fengu yfirráð yfir Hong Kong frá Bretum 1997. Lögin hafa verið sögð vera verkfæri Kínverja til að þagga niður í stjórnarandstæðingum og styrkja tök Kínverja á stjórn borgríkisins.
Samkvæmt lögunum er hægt að dæma fólk í ævilangt fangelsi fyrir að krefjast sjálfstæðis frá Kína og fyrir hryðjuverk.