ABC News skýrir frá þessu. Fyrir dómi kom fram að Rowen þjáist af ágengum heilasjúkdómi, líklegast Alzheimers. Dómurinn varð því að taka afstöðu til hvort Rowen, sem gat ekki mætt fyrir dóminn vegna slæmrar heilsu sinnar, væri sakhæfur.
Það var á jóladag 2019 sem allt fór úrskeiðis þegar fjölskyldan kom saman í bænum Creswick. Rowen drakk þá bjór og fékk sér hlaupskot sem innihéldu vodka. Hann skellti þremur slíkum í sig og trúði ekki ættingjum sínum þegar þeir sögðu honum að hlaupið innihéldi sterkt áfengi.
Þegar heim var komið rifust hjónin út af þessu og það endaði með að Rowen réðst á eiginkonu sína, Rosalie Rowen 78 ára, með fílastyttu. Hann hljóp síðan út á götu alblóðugur. Nágranni hringdi í lögregluna og Rosalie var strax flutt á sjúkrahús þar sem hún lést skömmu síðar. Þau höfðu verið gift í 60 ár.
Þegar dómurinn var kveðinn upp sagði Lesley Taylor, dómari, að á milli klukkan 20.20 og 21.45 þetta örlagaríka kvöld hafi Rowen komið aftan að eiginkonu sinni og lamið hana ítrekað í höfuðið með fílastyttu úr tré. Hún hafi hlotið mörg högg á höfuðið. Hún sat í stólnum sínum í stofunni þegar þetta gerðist.
„Ég drap hana, þið getið tekið mig með, ég get aflplánað 20 ár,“ sagði hann þegar lögreglan kom á vettvang.
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að enginn vafi léki á að Rowen hafi orðið eiginkonu sinni að bana en þar sem hann þjáist af heilasjúkdómi er ekki hægt að dæma hann í fangelsi að mati dómsins. Hann verður því í umsjá heilbrigðisyfirvalda í Victoria sem munu finna hvaða leiðir eru færar til að veita honum meðferð.