Þurrkarnir bæta auðvitað ekki ástandið nú þegar hið árlega skógar- og gróðureldatímabil er að hefjast en sérfræðingar reikna með að eldarnir á þessu ári verði enn verri en á síðasta ári þegar stór svæði urðu eldi að bráð.
Hitabylgjan sem nú geisar í vesturhluta landsins hefur haft í för með sér að mörg hundruð hitamet hafa fallið og þurrkarnir hafa aukist. Þeir hafa áhrif á landbúnað, valda vatnsskorti og auka álagið á innviði samfélagsins.
15. júní var send út aðvörun til um 50 milljóna Bandaríkjamanna um yfirvofandi háan hita og rættist það svo sannarlega. Í Salt Lake City í Utah fór hitinn í 42 gráður og hafði aldrei farið svo hátt þar síðan mælingar hófust. Víða í Kaliforníu náði hann 50 gráðum. Þetta gerðist í júní sem er ekki hlýjasti mánuður ársins, það er júlí.
„Yfirstandandi þurrkar verða hugsanlega þeir verstu í að minnsta kosti 1.200 ár,“ hefur The Guardian eftir Kathleen Johnson, prófessor í loftslagsfræði við University of California. Hún vinnur við rannsóknir á loftslagsbreytingum í gegnum árþúsundin með því að lesa úr aldurshringjum trjáa. Þegar þetta er borið saman við söguleg gögn sem vísindamenn hafa greint þá sést að yfirstandandi þurrkar eru sögulega slæmir og bein afleiðing loftslagsbreytinga af mannavöldum. „Það er ljóst að það sem við upplifum núna er ekki náttúrulegt. Þetta er án vafa afleiðing losunar mannkynsins á gróðurhúsalofttegundum,“ sagði hún.