Áratugum saman reyndi Raymond Hekking að sannfæra heimsbyggðina um að málverkið, sem hann keypti í franskri fornmunaverslun 1953, væri hið upprunalega málverk og að það sem hangir í Louvre safninu sé falsað. En það tókst honum ekki. Fyrir uppboðið í síðustu viku lagði hver sérfræðingurinn á fætur öðrum áherslu á að málverkið væri eftirlíking, sem sagt fölsun.
„Þetta líkist Monu Lisu en það er ekki málað með þeim gæðum sem einkenna Leonardo da Vinci,“ segir í yfirlýsingu frá Pierre Etienne, yfirmanni þeirrar deildar Christie‘s sem sér um gömul meistaraverk.
Þegar Hekking barðist fyrir því að fá viðurkennt að málverkið hans væri það upprunalega lagði hann áherslu á að upprunalega málverkinu hafi aldrei verið skilað aftur eftir að því var stolið í upphafi tuttugustu aldarinnar. Hann hélt því fram að það hefði endað í litlum bæ í Provence þar sem hann fann það.
Það var evrópskur safnari sem keypti málverkið en 14 buðu í það. Þegar búið var að bjóða 500.000 evrur í það fór næsta boð í 2,4 milljónir evra og lokaboðið var upp á 2,9 milljónir evra en það svarar til um 426 milljóna íslenskra króna.