Sú staða var þá komin upp að fjöldi Bandaríkjamanna, sem voru um borð í skemmtiferðaskipinu Diamond Princess sem var á siglingu í Kyrrahafinu, voru smitaðir af kórónuveirunni. Um borð voru 3.711 farþegar og áhafnarmeðlimir og staðfest hafði verið að 712 voru smitaðir. Trump vildi alls ekki að bandarísku ferðamennirnir yrðu fluttir heim til að fá læknisaðstoð. Þegar háttsettur aðili í utanríkisráðuneytinu heimilaði að 14 farþegar yrðu fluttir heim varð Trump mjög reiður og krafðist þess að viðkomandi yrði rekinn úr starfi. „Þessi ákvörðun tvöfaldaði tölurnar á einni nóttu,“ sagði hann við Alex Azar, þáverandi heilbrigðisráðherra, en með heimflutningi þessara 14 sjúklinga voru staðfest smit í Bandaríkjunum orðin 28.
Á fundi í Hvíta húsinu lagði Trump fram hugmynd um hvernig væri hægt að halda farþegum skemmtiferðaskipsins frá meginlandi Bandaríkjanna. „Er ekki einhver eyja sem við eigum? Hvað með Guantanamo?“ sagði hann.
Starfsfólki stjórnar hans var að sögn mjög brugðið yfir þeirri hugmynd hans að flytja Bandaríkjamenn til Guantanamo en þar geyma Bandaríkin grunaða hryðjuverkamenn.
Trump viðraði þessa hugmynd aftur en þá tókst að beina huga hans annað. Þetta og fleira kemur fram í bókinni sem er skrifuð af Yasmeen Abutaleb og Damian Paletta. Hún byggist á rúmlega 180 viðtölum við starfsfólk í Hvíta húsinu og embættismenn sem komu að aðgerðum gegn heimsfaraldrinum.
Washington Post segir að bókin veiti innsýn í þá ringulreið sem ríkti í Hvíta húsinu og ófullnægjandi viðbrögð, valdabaráttu í tengslum við baráttuna við heimsfaraldurinn og endalaus átök og rifrildi sem komu í veg fyrir samstarf og þá miklu vinnu sem var lögð í að koma í veg fyrir að Trump fylgdi hugboðum sínum.
Trump er sagður hafa haft álíka mikla óbeit á sýnatökum vegna kórónuveirunnar og því að hleypa smituðum Bandaríkjamönnum inn í landið. Í símtali við Azar, heilbrigðisráðherra, þann 18. mars öskraði hann svo hátt að starfsfólk Azar heyrði hvert einasta orð. „Þessar sýnatökur eru að drepa mig. Ég mun tapa kosningunum vegna þeirra. Hvaða fáviti ákvað að alríkisyfirvöld ættu að koma að sýnatökum?“ sagði hann við Azar sem svaraði: „Þú átt við Jared?“ og átti þar við Jared Kushner, tengdason Trump, sem hafði fimm dögum áður tekið yfir stjórn á sýnatökum í Bandaríkjunum í samstarfi við einkafyrirtæki.
Í bókinni kemur fram að Trump hafi verið þeirrar skoðunar að Centers for Disease Control and Prevention (CDC) ætti alls ekki að kortleggja smitin. Hann öskraði einnig á Azar að það bæri merki um algjöra vanhæfni að láta CDC þróa kórónuveirupróf. Sérfræðingar hafa síðan slegið því föstu að það hafi verið skortur á sýnatökum sem gerði kórónuveirunni kleift að dreifast óhindrað um Bandaríkin í byrjun árs 2020 og þannig hafi fyrsta bylgja smita og dauðsfalla skollið á landinu.