Því hefur verið velt upp á Vesturlöndum hvort Shi Zhengli viti sannleikann um uppruna COVID-19 en hún þvertekur fyrir það og segir að nafn hennar hafi verið atað auri.
Joe Biden, Bandaríkjaforseti, hefur beðið bandarískar leyniþjónustustofnanir um að skila skýrslu um uppruna veirunnar til að heimsbyggðin færist nær því að fá svar um uppruna hennar. Meðal þess sem verður rannsakað er hvort Institut for Virologi í Wuhan tengist málinu, hvort veiran hafi sloppið þaðan út og síðan breiðst út um allan heim. Ef það er raunin þá gerðist það varla án þess að Shi Zhengli fengi vitneskju um það. Hún er forstöðumaður rannsóknarstofunnar sem New York Times segir að marga vísindamenn gruni að sé upphafsstaður veirunnar. Blaðið segir að margir alþjóðlegir vísindamenn saki Shi um að hafa unnið að áhættusömum tilraunum með leðurblökur án þess að fyllsta öryggis hafi verið gætt. Aðrir gagnrýna hana og rannsóknarstofuna fyrir skort á gegnsæi í tengslum við rannsókn á uppruna veirunnar.
Shi er allt annað en sátt við þessar ásakanir og vísar því algjörlega á bug að rannsóknarstofan og hún sjálf tengist veirunni á nokkurn hátt. „Hvernig á ég að leggja fram sannanir þegar ég hef engar sannanir? Ég skil ekki hvernig stendur á því að heimurinn er kominn á þann stað að ata saklausa vísindakonu stöðugt aur,“ sagði hún í samtali við New York Times. Fram að þessu hafa engar áþreifanlegar sannanir verið lagðar fram sem sýna að kórónuveiran eigi rætur að rekja til rannsóknarstofu Shi.
Þegar ferill Shi er skoðaður gefur hann ekki tilefni til að ætla að þar sé á ferð vísindakona sem skorti fagmennsku sem hafi síðan valdið því að veiran slapp út úr rannsóknarstofunni.
Hún lauk doktorsprófi frá háskóla í Montpellier í Frakklandi árið 2000. Fjórum árum síðar byrjaði hún að rannsaka leðurblökur í kjölfar kórónuveirunnar Sars. Blanda af veirum og leðurblökum varð viðfangsefni hennar og hún fékk fljótlega viðurnefnið „Leðurblökukonan“ vegna áhuga hennar á leðurblökum og fjölda rannsóknarleiðangra hennar í hella leðurblaka víða um Kína.
Í framhaldinu var byrjað að gera ýmsar tilraunir með mismunandi kórónuveirur á rannsóknarstofu hennar í Wuhan. Þar erfðabreytti Shi veirunum til að sjá hvernig þær hegðuðu sér eftir það. Gagnrýnendur segja að slík vinna auki hættuna á að nýjar og hættulegar veirur verði til en Shi telur að þetta hafi verið þess virði. „Ef þú getur bara einu sinni komið í veg fyrir faraldur á grunni vinnu okkar þá er það sem við gerum mikilvægt,“ sagði hún í samtali við kínverska ríkissjónvarpsstöð 2017.
Á 17 ára ferli sínum við rannsóknir á veirum og leðurblökum hefur Shi uppgötvað fjölda áður óþekktra kórónuveira í leðurblökum. Hún leggur áherslu á að flestar séu þær algjörlega hættulausar fyrir fólk.
Í viðtali við vísindaritið Scientific American á síðasta ári sagði hún að mikilvægt sé að rannsaka enn frekar þær mörgu tegundir veira sem eru í leðurblökum um allan heim. Það sem búið sé að finna sé aðeins „toppurinn á ísjakanum“. „Kórónuveirur úr leðurblökum munu valda fleiri faröldrum. Við verðum að finna veirurnar áður en þær finna okkur,“ sagði hún.