Síðasta ár var metár í Bandaríkjunum hvað varðar skógarelda og reiknað er með að það met verði slegið í ár. Það sem af er ári hafa 26% fleiri skógareldar kviknað en á sama tíma á síðasta ári að sögn yfirvalda. Af þeim sökum eiga 2.000 geitur nú að éta gras, lauf, blóm, runna og annan gróður til að koma í veg fyrir að í honum kvikni. Eldur breiðst hratt út í þurrum gróðri og því er gott að láta geiturnar éta sem mest af honum.
Kryssy Mache, umhverfisvísindamaður og einn af hugmyndasmiðunum á bak við verkefnið, segir að það besta við geiturnar sé að þær séu ótrúlega sólgnar í gras og borði mikið og vel. Þær fá nú að gæða sér gróðri í skógi nærri Oroville vatni í norðurhluta Kaliforníu. Þetta svæði varð einna verst úti í skógareldum á síðasta ári. Margir létust þar og fjöldi íbúa varð að flýja eldhafið.
Vice hefur eftir Mache að geiturnar éti allt sem að kjafti kemur og komi því að góðu gagni í baráttunni við skógarelda. Þær eiga auðvelt með að komast um skóglendi, ná hátt upp á trjástofna og auðvelda þannig slökkviliðsmönnum að ná tökum á eldi ef hann brýst út með því að vera búnar að éta mikið af gróðri.