Í nýrri ársskýrslu hugveitunnar kemur fram að nú séu til 3.825 bardagaklárir kjarnaoddar í heiminum og fjölgaði þeim um 105 á milli ára. Í fréttatilkynningu frá hugveitunni er haft eftir Hans M. Kristensen, sem starfar hjá Sipri, að þetta sé mikið áhyggjuefni.
Sipri telur að nú séu til 13.080 kjarnorkuvopn í heiminum og hefur þeim fækkað um 320 á milli ára. 90% af þessum vopnum tilheyra Bandaríkjunum og Rússlandi en restin skiptist á milli Kína, Frakklands, Bretlands, Pakistan, Indlands, Ísraels og Norður-Kóreu.
Af þeim 3.825 kjarnaoddum sem eru bardagaklárir eru um 2.000 tilbúnir til notkunar með nokkurra mínútna fyrirvara að mati Sipri.
Auk þess að bardagaklárum kjarnorkuvopnum hafi fjölgað þá hafa kjarnorkuveldi heimsins fundið hjá sér þörf að undanförnu til að nútímavæða kjarnorkuvopnabúr sín og virðast þau leggja meiri áherslu á þau núna í hernaðaráætlunum sínum að mati Sipri.