Ef þú ert morgunhani og sólarhringsrútínan þín passar vel við hefðbundinn vinnudag, barnauppeldi og annað þá ertu í góðum málum. En það er kannski erfiðara að vera næturhrafn sem er hannaður til að eiga sínar bestu stundir á kvöldin og nóttinni.
Niðurstöður nýrrar rannsóknar, sem hefur verið birt í Molecular Psychiatry, sýna að því geta fylgt ýmis heilsufarsleg vandamál að vera næturhrafn. Næturhrafnar séu líklegri til að glíma við þunglyndi, kvíða og almenna vanlíðan. Rannsóknin byggist á heilsufarsupplýsingum og eftirliti með 85.000 Bretum.
Vísindamennirnir báru svefnupplýsingar þátttakenda saman við skráningu þeirra á eigin líðan og skapi og komust að því að þeir sem eru ekki með svefnvenjur sem falla að 8-5 vinnu voru líklegri til að glíma við þunglyndi, kvíða og almenna vanlíðan.
„Heilsufarsvandamálin tengd því að vera næturhrafn eru líklega afleiðing af því að vera næturhrafn í heimi morgunhressra. Þetta hefur í för með sér truflun á dægurrytmanum,“ hefur CNN eftir Kristen Knutson, prófessor í taugafræði við Northwestern University Feinberg School of Medicine, en hún kom ekki að rannsókninni.