Það var einmitt gert í þessu máli. En ökumaðurinn átti ekki bílinn sem hann ók en það var Mazda CX-3 sem 34 ára unnusta hans hafði keypt tæpum tíu mánuðum áður og tekið lán upp á sem svarar til um fjögurra milljóna íslenskra króna til að greiða fyrir bílinn.
Málið fór fyrir dóm í Glostrup og komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að bíllinn skuli gerður upptækur til ríkisins þar sem hann var notaður við það sem er skilgreint sem „brjálæðisakstur“ í nýju ákvæði umferðarlaganna.
Ökumaðurinn var að auki dæmdur í 20 daga óskilorðsbundið fangelsi. Hann tók sér umhugsunartíma til að ákveða hvort hann áfrýi niðurstöðunni til Landsréttar.
Verjandi parsins sagði fyrir réttarhöldin að hann telji það brot á stjórnarskrárvörðum eignarétti að gera bílinn upptækan til ríkisins. Saksóknari var annarrar skoðunar og sagðist telja niðurstöðu dómsins í samræmi við vilja þingsins með lagasetningunni.
Bíllinn verður seldur á uppboði nema málinu verði áfrýjað til Landsréttar og jafnvel Hæstaréttar í framhaldi af því og þar verði komist að annarri niðurstöðu.
Nýja ákvæði umferðarlaganna tók gildi 31. mars. Í byrjun júní hafði lögreglan lagt hald á rúmlega 170 ökutæki á grundvelli þess og mun fara fram á að þau verði gerð upptæk til ríkisins. Af þessum 170 ökutækjum eru 70 í eigu annarra en ökumannanna.