Ayik er vel tengdur inn í heim afbrotamanna, bæði heima fyrir en einnig á alþjóðavettvangi. Hann virðist hafa gegnt lykilhlutverki í aðgerð lögreglunnar sem ástralska alríkislögreglan, sú bandaríska og Evrópulögreglan Europol stóðu að í sameiningu.
Í 16 löndum voru 800 meðlimir skipulagðra glæpasamtaka handteknir. Hald var lagt á mikið magn vopna, fíkniefna og tæplega 50 milljónir dollara í reiðufé.
Hornsteinn rannsóknar lögreglunnar var samskiptaappið ANOM sem var þróað af bandarísku alríkislögreglunni FBI. Með því gátu afbrotamenn átt í dulkóðuðum samskiptum. En þeir vissu ekki að starfsmenn FBI sátu við tölvuskjái og fylgdust með öllum samskiptum þeirra. Appið var aðeins hægt að nota í sérstökum símum sem voru ekki nothæfir í neitt annað en til að hringja í og úr og fyrir ANOM appið. Það má segja að appið hafi gert lögreglunni kleift að vera í rassvasa glæpamanna.
Það er einmitt þar sem Ayik kemur inn í myndina. Hann var að sögn ástralska yfirvalda einn sá fyrsti til að nota appið og hann var iðinn við að mæla með því við félaga sína í undirheimunum. BBC skýrir frá þessu. Það voru lögreglumenn í dulargervi sem létu hann fá farsíma með appinu og út frá því náði það útbreiðslu í undirheimunum.
Ayki hefur verið eftirlýstur af áströlsku lögreglunni síðan 2011 en hann er grunaður um að vera höfuðpaurinn í stórum fíkniefnahring. Hann er talinn halda sig í Tyrklandi en hann er ættaður þaðan. Talið er að nú sé skynsamlegast fyrir hann að láta lítið fyrir sér fara því aðrir „notendur“ appsins muni hugsanlega hugsa honum þegjandi þörfina þegar þeir átta sig á að hann kom appinu í dreifingu meðal glæpamanna.