Á fréttamannafundi í gær sagði lögreglan að ekki sé útilokað að maðurinn verði ákærður fyrir hryðjuverk. „Það eru sannanir fyrir að þetta hafi verið skipulagt og gert af ásettu ráði og við teljum að fjölskyldan hafi verið valin vegna trúar sinnar,“ sagði Paul Waight, yfirlögregluþjónn, á fréttamannafundi.
Það var klukkan 20.40 að staðartíma á sunnudagskvöldið sem maðurinn ók á fjölskylduna. Þau sem létust voru 15 ára stúlka, 44 ára kona, 46 ára karl og 74 ára kona. 9 ára drengur lifði af en liggur alvarlega slasaður á sjúkrahúsi.
Ed Holder, borgarstjóri, sagði á fréttamannafundinum að borgarbúar syrgi með fjölskyldunni en fólk úr þremur kynslóðum hennar hafi látist. „Þetta var fjöldamorð á múslímum í London og það átti sér rætur í hatri,“ sagði hann.
Hinn handtekni var handtekinn á sunnudaginn í verslunarmiðstöð um sjö kílómetra frá staðnum þar sem hann ók á fjölskylduna. Hann var að sögn í skotheldu vesti.
Þetta er mannskæðasta árásin á múslíma í Kanada síðan sex manns voru skotnir til bana í mosku í Québec 2017.