Lögreglan í West Midlands í Bretlandi réðst nýlega til inngöngu í stóra byggingu í héraðinu. Talið var að þar færi umfangsmikil kannabisræktun fram því upplýsingar höfðu borist um stöðugar mannaferðir inn og út úr húsinu og það á öllum tímum sólarhringsins. Að auki lá mikið af leiðslum inn í bygginguna og margir loftstokkar voru á henni. Lögreglan flaug dróna yfir bygginguna og mældi hann mikið hitaútstreymi frá henni. Allt eru þetta klassísk merki um að kannabisræktun sé í gangi.
Lögreglan réðst því til inngöngu og komst þá að því að alls engin kannabisræktun fór fram í byggingunni. En hún var full af tölvum sem voru á fullu við að grafa eftir rafmyntinni Bitcoin. Rafleiðsla lá síðan í tengibox raforkufyrirtækis og sá tölvunum fyrir rafmagni án vitundar orkufyrirtækisins. The Guardian skýrir frá þessu.
Það þarf mikla raforku þegar grafið er eftir Bitcoin og því hafði raflögn verið lögð framhjá rafmagnsmælinum til að draga úr kostnaðinum. Það er ekki ólöglegt að grafa eftir Bitcoin en það er að sjálfsögðu ólöglegt að stela rafmagni.