Meðal margra morða hans er morðið á Giovanni Falcone, sem var þekktur dómari í málum tengdum mafíunni en hann var í fararbroddi í baráttunni gegn henni. Falcone, eiginkona hans og þrír lífverðir voru myrt þann 23. maí 1992 á Sikiley þegar sprengja sprakk í bíl þeirra. Það var Brusca sem ýtti á hnappinn sem tendraði sprengjuna.
„29 árum síðar höfum við ekki enn fengið að vita sannleikann um morðið á Falcone og um Giovanni Brusca, manninn sem lagði fjölskyldu mína í rúst,“ sagði eiginkona eins lífvarða Falcone í gær.
Eitt hrottalegasta morðið sem Brusca hefur á samviskunni er á 12 ára dreng. Honum var rænt í hefndarskyni fyrir að faðir hans hafði átt í samstarfi við yfirvöld. Honum var haldið föngnum í tvö ár við skelfilegar aðstæður en síðan var hann kyrktur. Lík hans var síðan leyst upp í saltsýru. „Það getur ekki verið að lögin gildi fyrir fólk eins og hann,“ sagði Santiona Di Matteo, faðir drengsins, í gær í samtali við Corriere della Sera. Di Matteo fer huldu höfði af ótta við mafíuna.
Brusca var látinn laus í gær því hann vitnaði gegn mafíunni en sá vitnisburður tryggði honum reynslulausn í fjögur ár. Sjálfur var hann lykilmaður í Cosa Nostra og var einn tryggasti samstarfsmaður Salvatore Toto Riinas, leiðtoga Cosa Nostra.