Tíu bólusettir einstaklingar eiga möguleika á að vinna 1,5 milljónir dollara hver. Þetta er talin vera stærsta fjárhagslega gulrótin sem yfirvöld í Bandaríkjunum hafa beitt fram að þessu til að fá fólk til að láta bólusetja sig.
Tomás Aragón, hjá heilbrigðisyfirvöldum ríkisins, sagði í yfirlýsingu að vinningshafarnir tíu verði dregnir út 15. júní en þá verður sóttvarnaaðgerðum aflétt með öllu í ríkinu. Að auki fá 30 til viðbótar 50.000 dollara hver.
Allir Kaliforníubúar, sem hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni, geta tekið þátt í lottóinu. Ef svo fer að einhver yngri en 18 ára verði dreginn út verða verðlaunin sett inn á söfnunarreikning og geymdir þar, þar til vinningshafinn verður 18 ára.
Auk lottósins munu næstu tvær milljónir Kaliforníubúa, sem láta bólusetja sig, sjálfkrafa eiga rétt á gjafakorti upp á 50 dollara sem er hægt að nota í fjölda stórmarkaða. Um 40 milljónir búa í Kaliforníu sem er fjölmennasta ríki Bandaríkjanna.